Gæðakerfi  Íslofts byggir á kröfum Mannvirkjastofnunar (MVS).  Kerfið uppfyllir kröfur og er samþykkt af MVS með skráðum blikksmíðameisturum með tilheyrandi landslöggildingu.

Helstu kröfur / leiðbeiningar MVS um Gæðakerfi  Iðnmeistara eru eftirfarandi:

Gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara

Í grein 4.10.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segir:

„Iðnmeistarar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi sem felur a.m.k. í sér:

a.       Staðfestingu á hæfni iðnmeistara,

b.       Eftirfarandi skrár yfir eigið innra eftirlit vegna einstakra verkþátta:  

1.       lýsingu á því hvernig innra eftirliti með einstökum verkþáttum er sinnt,

2.       skrá yfir hönnunargögn, verklýsingar og önnur skrifleg fyrirmæli,

3.       skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra,

4.       skrá yfir athugasemdir og samskipti við byggingarstjóra vegna framkvæmdar,

5.       skráning á niðurstöðu innra eftirlits.

Iðnmeistari skal tilkynna Mannvirkjastofnun um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Sé gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skal Mannvirkjastofnun gera úttekt á gerð þess og virkni.“

Í ákvæði til bráðabirgða í 2. tölulið segir:

„Hönnuðir, hönnunarstjórar, byggingarstjórar og iðnmeistarar hafa frest til 1. janúar 2015 til að uppfylla ákvæði 4.6.1, 4.8.1 og 4.10.2 gr. um gæðastjórnunarkerfi.“

Umfang

Leiðbeiningarnar eiga við um þá starfsemi iðnmeistara sem fellur undir ábyrgð hans samkvæmt byggingareglugerð. Leiðbeiningar þessar ná yfir starfsemi húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara, blikksmíðameistara, stálvirkjameistara og málarameistara og dúklagninga- og veggfóðrarameistara. Um gæðastjórnunarkerfi rafvirkjameistara gildir reglugerð um raforkuvirki nr. 678/2009. Þeir iðnmeistarar sem hafa fengið starfsleyfi sem þjónustuaðili brunaþéttinga samkvæmt 38. gr. a laga um brunavarnir, nr. 75/2000, skulu að auki fara eftir leiðbeiningum um gæðakerfi þjónustuaðila brunaþéttinga eins og fram kemur í reglugerð um þjónustuaðila brunavarna nr. 1067/2011.

Ábyrgð

Iðnmeistari ber ábyrgða á allri framkvæmd við innleiðingu og rekstur gæðastjórnunarkerfis og að það verði samkvæmt settum reglum.


Leiðbeiningar/Lýsing

Gæðastjórnunarkerfi

Iðnmeistara ber að koma sér upp skilgreindu gæðastjórnunarkerfi þannig að tryggt er að öll starfsemi hans verði samkvæmt reglum. Iðnmeistari fylgi byggingareglugerð, leiðbeiningum og fyrirmælum Mannvirkjastofnunar og öðrum gildandi lögum og reglum, eftir því sem við á, í störfum sínum.

Skráning á verkum og verkþáttum og vistun gagna

Iðnmeistara ber að koma sér upp verkskráningu og vistun gagna sem uppfyllir þau skilyrði að hægt er að rekja öll hans verk. Ef þess er óskað af Mannvirkjastofnun, skal iðnmeistari geta sýnt yfirlit yfir verk sín og rakið hvert verkefni og hvern verkþátt.

Helstu gögn sem iðnmeistara ber að vista eru:

 • Vottorð og skjöl er varða löggildingu iðnmeistara
 • Vottorð og skjöl er varða menntun og hæfni

 • Ábyrgðaryfirlýsingar vegna útgáfu byggingaleyfa

 • Tilkynningar um iðnmeistaraskifti

 • Vottorð frá Vinnueftirliti ríkisins eftir því sem við á

 • Samningar

 • Samningar við byggingarstjóra um samskipti

 • Skrá yfir móttekin hönnunargögn, verklýsingar og önnur fyrirmæli

 • Samskipti við byggingastjóra og athugasemdir vegna framkvæmda
 • Skrá yfir úttektir samkvæmt byggingarreglugerð og niðurstöður þeirra (úttektir byggingarstjóra, áfangaúttektir, stöðuúttektir, öryggisúttekt og lokaúttekt)

 • Gögn um prófanir lagnakerfa eftir því sem við á

 • Gögn um vottanir/efnislýsingar byggingarvöru

 • Skrá yfir innri úttektir og niðurstöður þeirra

 • Bréf og fyrirmæli Mannvirkjastofnunar vegna gæðastjórnunarkerfis

 • Viðeigandi staðlar

Innra eftirlit

Iðnmeistara ber að hafa eftirlit með allri vinnu sem unnin er í hans nafni, enda ber hann ábyrgð á framkvæmd hennar. Hann skal gera áætlun um innra eftirlit með einstaka verkþáttum og lýsingu á því hvernig eftirlitinu er sinnt. Halda skal skrá yfir niðurstöður innra eftirlits ásamt þeim úrbótum sem ráðist var í vegna athugasemda og frábrigða í úttekt.

Við framkvæmd eigin eftirlits með gæðastjórnunarkerfinu skal nota gátlista sem Mannvirkjastofnun notar við skoðun á gæðastjórnunarkerfinu, lög um mannvirki, byggingarreglugerð, leiðbeiningar Mannvirkjastofnunar og viðeigandi staðla.